“Lóan er komin að kveða burt snjóinn, að kveða burt leiðindin það getur hún…” þannig orti skáldið Páll Ólafsson um vorboðann, heiðlóuna (Pluvialis apricaria). Með angurblíðu kvaki sínu syngur heiðlóan sig inn í hjörtu manna á norðlægum slóðum snemma vors, nýkomin frá suðlægari löndum. Hún færir þeim fréttir um að vor og sumar með blóm í haga sé ekki langt undan. Þannig hefur koma heiðlóunnar til Íslands orðið táknræn fyrir vorkomuna. Vetrarheimkynni hennar eru á Bretlandseyjum og á meginlandi V-Evrópu. Frá vetrardvöl sinni kemur heiðlóan oftast til Íslands snemma í apríl. Fyrst dvelst hún með ströndum fram en fer fljótlega að leita til varpstöðvanna, sem eru móar, mýrar og heiðar. Heiðlóan er sérlega slyng í að tæla óboðna gesti í burtu frá hreiðri og ungum og foreldrarnir hafa vakandi auga með umhverfinu ungunum til verndar. Ungarnir verða fleygir um mánuði eftir að þeir koma út úr eggi. Í lok júlímánaðar fer heiðlóan að leita til stranda og síðsumars flýgur hún suður til vetrardvalar.

Krían (Sterna paradisaea) er annar boðberi vors á Íslandi. Á vorin kemur hún fyrri helming maímánaðar og er víðast alkomin 14. maí. Kríunni er sérlega vel fagnað á vorin. Menn bíða þess víða með mikilli eftirvæntingu að þessi vorboði komi til landsins. Kría verpir t.d. í Tjarnarhólmanum í Reykjavík og er Reykjavík áreiðanlega eina höfuðborgin sem getur státað af kríuvarpi í miðri borg. Ástæða er til að taka vel á móti kríunni á vorin, því að enginn íslenskur fugl gerir eins víðreist og hún. Kríur við norðanvert Atlandshaf, bæði austan hafs og vestan og kríur nálægra íshafslanda, halda á haustin suður með vesturströndum Evrópu og Afríku og alla leið til syðsta hluta Atlandshafsins og Suður-Íshafsins. Þannig hefur kríuungi, sem merktur var á Grænlandi í júlímánuði, náðst aftur í október sama ár á austurströnd Suður-Afríku og hafði þá flogið 18000 kílómetra frá merkingarstað.

Stúdentsefnin eru eins og lóan og krían með sýnilegustu vorboðunum. Þegar þau birtast kampakát í sínum skrautlegu búningum að “dimmitera” er víst að veturinn er að baki og vorið er komið. Fátt kætir kýrnar meira en þegar þeim er sleppt út eftir veturlanga dvöl í fjósinu. Vorið hleypir líka nýju lífi í tilveru okkar mannanna þótt það komi ekki jafn skyndilega til okkar eins og kúnna. Hækkandi sól lokkar unga og aldna út undir bert loft að sinna vorverkunum og það verður einhvern veginn sjálfsagðara að bregða sér bæjarleið til þess að fara í sund eða fá sér ís.

TusoDikens

Welcome! I'm TusoDikens, and I'm absolutely thrilled to be your guide on this epic journey through the land of fire and ice here at icetourist.is. As a passionate traveler and lover of all things Icelandic, I've dedicated myself to sharing the wonders of this mesmerizing country with you. So grab your hiking boots and your sense of wonder, and let's uncover the magic of this incredible country together! Email: tusodikensiceland@yahoo.com