Gróðurlendi á Íslandi er víðast hvar ólíkt því sem sjá má í útlöndum. Eitt það fyrsta sem menn reka augun í eru þúfurnar í móum og graslendi. Til er skrýtla um útlending sem hélt að þúfur væru gerðar af mannahöndum til að stækka yfirborð graslendis svo það gæfi meira af sér af grasi! Auðvitað eru þúfur ekki mannvirki heldur leikur náttúrunnar.
Af því að Ísland liggur á mörkum heimskautasvæðis og fremur hlýs svæðis er hitinn úti oft ýmist ofan eða neðan við 0°C. Hér eru tíð skipti á milli frosts og þíðu. Vatn í jarðvegi frýs eða þiðnar mörgum sinnum á viku að meðaltali ár hvert, yfir vetrartímann. Vatn þenst út þegar það frýs (öfugt við önnur efni) og þá þrýstast sandkorn, leirkorn, smásteinar og lífrænar leifar í moldinni upp og til hliðar. Á löngum tíma og við margendurteknar þíður verða sums staðar til smáhólar í jarðveginum en annars staðar dældir. Þannig myndast þúfurnar.